1. janúar 2015
Innblásin skjöl tengjast gjarnan dagsetningum. Sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna var undirrituð þann 4. júlí 1776; Charter 77 kom fram á sjónarsviðið árið 1977; Dogme 95 var samin 1995. Hugsjónir breytast og þróast með tímanum. Þessi yfirlýsing er til marks um leiftur af hugsjónum okkar, framtíðarsýn og því sem við hörfum lært um nám og menntun fram að þessu. Þessum texta er ætlað að þjóna sem viðmið til að hjálpa okkur að skilja hvað við höfum verið að gera og hvað við þurfum að gera næst
Í heimi óvissu og sívaxandi tilfinningar fyrir úreldingu menntakerfis okkar veltum við fyrir okkur hvernig við getum tryggt farsæld okkar sjálfra, samfélaganna sem við tilheyrum og plánetunnar sem við byggjum. Við þurfum að þróa menntun áfram.
„Framtíðin er hér – henni er bara misskipt“ (William Gibson í Gladstone, 1999). Menntun hefur dregist aftur úr næstum öllum öðrum iðnaði fyrst og fremst vegna tilhneigingar okkar til að horfa til baka en ekki fram á veginn. Sem dæmi má nefna að við kennum um sögu bókmennta en ekki framtíð ritlistar. Við kennum sögulega mikilvæg stærðfræðihugtök en tökumst ekki á við það verkefni að skapa nýja stærðfræði sem þörf er á til að byggja framtíð okkar. Ennfremur hefur allt sem er „byltingarkennt“ við nám þegar átt sér stað á einhvern, oft brotakenndan, hátt á öðrum sviðum. Áhrif þess verða gríðarleg, fyrir okkur sjálf og þær stofnanir sem við eigum, þegar við teljum í okkur kjark til að læra af reynslu annarra og sættum okkur við þá áhættu og ábyrgð sem felst í því að beita framtíðarhorfi á störf okkar og starfsemi.
1.0 skóli er getur ekki kennt 3.0 nemanda. Við þurfum að endurskilgreina og skerpa skilning okkar á hinum raunverulega tilgangi menntunar, til hvers erum við að þessu og hverjum á menntakerfið á þjóna? Almennur skylduskóli grundvallast á úreltu 18du aldar módeli sem hafði það hlutverk að hanna borgara sem gætu orðið tryggir, hagkvæmir verksmiðjustarfsmenn og embættismenn. Nú þegar hámark iðnvæðingar samfélagsins er að mestu gengið yfir getur þetta ekki verið hið endanlega markmið menntunar. Við þurfum að styðja nemendur í nýsköpun þannig að þeir geti beitt ímyndunarafli sínu og sköpunargáfu við að velta upp nýjum hliðum á samfélaginu. Þetta þarf að gerast vegna þess að áskoranir nútímans verða ekki leystar með gamalli hugsun. Ennfremur er það sameiginleg ábyrgð okkar allra að skapa framtíð jákvæðra úrlausnarefna heimsbyggðinni allri til hagsbóta.
Börn eru líka menn. Koma á fram við alla nemendur þannig að mennska þeirra sé virt sem og algild mannréttindi og skyldur. Í því felst að nemendur verða að hafa raunverulega eitthvað að segja um nám sitt og námskosti, þar með talið hvernig skólar þeirra eru reknir, hvernig og hvenær nám fer fram sem og um sem flest svið þeirra daglega lífs. Þetta er það sem skóli án aðgreiningar snýst um. Nemendur á öllum aldri verða að njóta frelsis til að grípa tækifæri til náms og beita aðferðum sem henta þeim, svo lengi sem ákvarðanir þeirra skerða ekki frelsi annarra til þess sama (aðlagað frá EUDEC, 2005).
Spennan við að stökkva sjálfviljugur fram af kletti er fremri þeirri sem fylgir því að vera hrint. Eða með öðrum orðum: Brauðmolakerfi menntunar þar sem kennarinn er ofar í stigveldinu en nemandinn tryggir ekki hámark náms þar sem það er rekið á kostnað forvitni og innri áhugahvatar nemandans. Við þurfum að móta flatari, jafnari og dreifðari nálgun við nám þar sem áherslan er m.a. á jafningjanám og -kennslu. Ennfremur að valdefla nemendur svo þeir átti sig á hvernig þeir geti beitt sér á sjálfstæðan hátt á þessu sviði. Fræðarar verða að skapa rými svo nemendur geti sjálfir afráðið hvort og þá hvenær þeir vilja hoppa fram af klettinum. Mistök eru eðlilegur þáttur náms, það má alltaf gera betur næst. Flatt kennsluumhverfi felur kennaranum það hlutverk að hjálpa nemandanum að taka ígrundaðar ákvarðanir. Það má gera mistök en þar má ekki liggja endapunktur.
Ef tækni er svarið, hver var þá spurningin? Við virðumst hafa nýja tækni á heilanum án þess að skilja endilega til hvers hún er eða með hvaða hætti hún getur bætt menntun. Tækni býður upp á miklu fremri aðferðir við að gera það sem við höfum verið að gera en að nýta hana þannig er sóun á tækifærum. Krítartöflur hafa vikið fyrir tússtöflum og Smarttöflum. Bækur víkja fyrir iPöddum. Þetta er eins og að byggja kjarnorkuver til að knýja hestvagn. Þrátt fyrir tæknina hefur sáralítið breyst og við eyðum stórfé, orku og tíma í verkfæri án þess að nýta möguleika þeirra til að umbylta námi og námsaðferðum. Með því að gera það sem við erum vön með nýjum tækjum fer öll athygli skólanna að snúast um vél- og hugbúnað í stað þess að þróa hinn eiginlega „hugbúnað“ nemendanna sjálfra og hið raunverulega hlutverk þessara tækja.
Hæfni í stafrænum heimi er ósýnileg og það ætti tæknin líka að vera í skólum. Með ósýnilegu námi er gengist við því að mest af því sem við lærum er „ósýnilegt“ – þ.e., það á sér stað fyrir tilverknað óformlegrar og tilviljunarkenndrar reynslu frekar en með formlegri tilsögn (Cobo & Moravec, 2011). Ennfremur er reiknað með möguleikum tækniframfara til að leyfa hinu ósýnilega rými að taka sinn sess – en það er ekki bara rýmið sem er ósýnilegt, notkun tækninnar er líka ósýnileg og flæðandi. Ef áskorun skólanna okkar og ríkisstjórna er að skapa nemendur sem skara fram úr í sköpunarhæfni og nýsköpun í stað staglkennds utanbókar- og hermináms þá verður nám að eiga sér nýjar og skapandi leiðir til útrásar. Skólar ættu ekki að nota tölvur til að „vinna verkefni“ sem skilgreind eru í þaula og hafa aðeins eina fyrirfram ákveðna niðurstöðu; tölvurnar á að nota til að hanna og skapa afurðir sem ná lengra en ímyndunarafl námskránna. Í stað þess að leggja áherslu á tæknina og láta námið falla í skuggann ætti hún að halda sig til hlés en vera þó til staðar til að styðja nemendur við að brjóta sér sínar eigin leiðir.
Við stjórnum ekki þekkingu. Þegar við tölum um þekkingu og nýsköpun ruglum við gjarnan þessum hugtökum saman við gögn og upplýsingar. Í of miklum mæli blekkjum við okkur sjálf og teljum að við höfum fært börnum þekkingu þegar við höfum aðeins prófað þau í að endurtaka það sem þeim hefur verið sagt. Skerpum á þessu: Gögn eru brotakennd og úr þeim smíðum við upplýsingar. Þekking er að taka upplýsingar og fela þeim persónulega merkingu. Nýsköpun á sér stað þegar við gerum eitthvað til að skapa úr því sem við þekkjum eitthvað nýtt sem er einhvers um vert. Að átta sig á þessum blæbrigðamun afhjúpar um leið eitt meginvandamál skólastjórnunar og kennslu: Við erum góð í að halda utan um upplýsingar en við getum ekki haldið utan um þekkingu í höfðum nemenda án þess að virðisfella það aftur niður í upplýsingar.
„Samskiptanetið er námið sjálft“ (Siemens, 2007). Sú menntunarfræði sem er að ryðja sér til rúms á þessari öld er ekki vandlega útpæld. Þvert á móti hefur hún þróast á flæðiskenndan hátt. Ferðir okkar fram og aftur um samskiptanet eru námsleiðir okkar og eftir því sem netið víkkar, víkkar líka námið. Tengslanálgun við nám felur í sér að við tengjum saman persónulega þekkingu hvers okkar til að skapa nýjan skilning. Við deilum reynslu og sköpum nýja (samfélagslega) þekkingu í kjölfarið. Við þurfum að leggja þunga áherslu á hæfni einstaklinga til að rata innan þessa rýmis og skapa sínar eigin tengingar svo þeir megi uppgötva hvernig hin einstaka þekking sem þeir búa yfir getur með hjálp hæfileika þeirra búið til samhengi við lausnir nýrra þrauta.
Framtíðin er nördanna, gaukanna, gerendanna, draumóramannanna og þekkingarveiðimanna og safnara (knowmads). Þótt það eigi ekki fyrir öllum að liggja að verða frumkvöðlar rennur upp sá tími að þeir sem ekki hafa frumkvöðlahæfni munu standa höllum fæti. Menntakerfi okkar ætti að leggja rækt við þróun frumnörda (entreprenerds): Einstaklinga sem geta notað sérþekkingu sína til að láta sér detta í hug, hanna, skapa, rannsaka, læra um og koma á framfæri frumkvæðum, menningarlegum og samfélagslegum tilraunum. Þeir taka áhættur og njóta ferðarinnar ekki síður er áfangastaðarins og óttast ekki möguleg mistök eða áföll sem fylgja ferðinni.
Brjóttu reglurnar en vertu með það á hreinu hvers vegna. Skólakerfi okkar byggir á menningu sem felur í sér hlýðni, þvingaða aðlögun og makræði. Hið skapandi starf nemenda, starfsmanna og stofnanna er vængstýft af sjálfu sér. Það er auðveldara að vera mataður af hugsunum en að hugsa sjálfur. Staðblær skoðanaskipta og spurninga sem ýtir undir eigin ígrundun á viðfangsefnunum og tilgangi þeirra kanna að vera besta lækningin við þessari kerfisbundnu meinsemd. Aðeins að lokinni slíkri ígrundun getum við skipulagt réttlætanlegt múrbrot á veggjum kerfisins og óbreyttu ástandi með þannig hætti að búast megi við að áhrifin verði varanleg.
Við verðum og getum byggt upp menning í skólum og samfélögum sem einkennist af trausti. Svo lengi sem menntakerfi okkar grundvallast á ótta, kvíða og vantrausti mun allt sem við höfum rætt fram að þessu mæta mikilli andstöðu. Minnevate! verkefnð (MASA, 2014) sýndi fram á að ef skólamenn ætla sér í víðtækar, kerfisbreytingar á menntun þarf skólasamfélagið allt að leggjast á árarnar og við þurfum að tengjast samfélaginu sem við þjónum. Þetta krefst nýttar aðgerðarfræði sem grundvallast á trausti, þar sem nemendur, skólar, ríkisstjórnir, fyrirtæki, foreldrar og samfélög geta tekið þátt í samfélagslegum verkefnum til að skapa saman nýja framtíð menntunar.
Sumir telja að grundvallaratriðin sem hér eru nefnd komist ekki til framkvæmda nema fyrir tilstilli byltingar. Aðrir segja að stórefld nýsköpun geti leitt til betri framtíðar náms. Við teljum hvorttveggja nauðsynlegt. Ronald van der Hoff (2013) orðaði þessa þannig: „Við þurfum hreinlega nýbyltingu (innovution)!“ (p. 236) Og þetta er okkar vegferð: Að skapa upp á nýtt, ekki aðeins með hugmyndum okkar og hugsjónum heldur með markvissri beitingu þess sem við höfum lært, ekki aðeins í einrúmi heldur saman – á heimsvísu.
Við erum: John Moravec, PhD, Education Futures (principal author, USA); Daniel Araya, PhD, University of Illinois at Urbana-Champaign (USA); Daniel Cabrera, MD, Mayo Clinic (USA); Alexandra Castro, Westhill Institute (Mexico); Cristóbal Cobo, PhD, Fundación Ceibal (Uruguay); Guido Crolla, HAN University of Applied Sciences (Netherlands); Chloe Duff, European Democratic Education Community (UK); Maaike Eggermont, Sudbury School Ghent (Belgium); Martine Eyzenga, Diezijnvaardig (Netherlands); José García Contto, Universidad de Lima (Peru); Kristin Gehrmann, Demokratische Schule München (Germany); Peter Gray, PhD, Boston College (USA); Renske de Groot, arts educator (Netherlands); Leif Gustavson, PhD, Pacific University (USA); Peter Hartkamp, The Quantum Company (Netherlands); Christel Hartkamp-Bakker, PhD, Newschool.nu (Netherlands); Pekka Ihanainen, Haaga-Helia School of Vocational Teacher Education (Finland); Aaron Keohane, Summerhill School (UK); Nicola Kriesel, BFAS e.V. (Germany); Beatriz Miranda, Aprendamos (Ecuador); Sugata Mitra, PhD, Newcastle University (UK); Hugo Pardo Kuklinski, PhD, Outliers School (Spain); Tomis Parker, Agile Learning Centers (USA); Angela Peñaherrera, Fraschini&Heller (Ecuador); Robert Rogers, MD, University of Maryland (USA); Carlos Scolari, PhD, Universitat Pompeu Fabra (Spain); António Teixeira, PhD, Universidade Aberta (Portugal); Stephanie Thompson, Beach Haven Primary (New Zealand); Max Ugaz, Economía Digital SAC (Peru); Evert-Jan Ulrich, Dutch Innovation School (Netherlands); Charles Warcup, Sudbury-Schule Ammersee (Germany); Monika Wernz, Sudbury-Schule Ammersee (Germany); Alex Wiedermann, Sudbury-Schule Ammersee (Germany)
Einfaldasta leiðin til að sýna stuðning við áskorunina er að deila henni með vinum og samstarfsfólki. Ef þú notar Twitter, vinsamlegast notaðu myllumerkið #manifesto15.
Þakkir fá allir sem lögðu sitt af mörkum til að gera þessa skrá markverða, sérstakar þakkir fara til þeirra sem skrifuðu undir í upphafi hverra endurgjöf og stuðningur skiptu miklu máli fyrir hina endanlegu útgáfu.
Þessi þýðing af hinu upprunalega skjali sem er á ensku er unnin af Ragnari Þór Péturssyni.
Sendu okkur póst á netfangið manifesto15@educationfutures.com.
Cobo, C., & Moravec, J. W. (2011). Aprendizaje Invisible: Hacia una nueva ecología de la educación. Barcelona: Laboratori de Mitjans Interactius / Publicacions i Edicions de la Universitat de Barcelona. http://www.aprendizajeinvisible.com
EUDEC. (2005). EUDEC guidance document. European Democratic Education Community. Retrieved January 1, 2015 from http://www.eudec.org/Guidance+Document#Article_1:20_Definitions
Gladstone, B. (Producer). (1999, November 30). The science in science fiction [Radio broadcast episode]. In Talk of the Nation. Washington, DC: National Public Radio. http://www.npr.org/templates/story/story.php?storyId=1067220
Gray, P. (2013). Free to learn. New York: Basic Books.
van den Hoff, R. (2013). Society30: Knowmads and new value creation. In J. W. Moravec (Ed.), Knowmad Society (pp. 231–252). Minneapolis: Education Futures. http://www.knowmadsociety.com
MASA. (2014). Minnevate! 2013-2014 activity report. St. Paul, MN: Minnesota Association of School Administrators. http://minnevate.mnasa.org
Moravec, J. W. (Ed.) (2013). Knowmad Society. Minneapolis: Education Futures. http://www.knowmadsociety.com
Siemens, G. (2007). The network is the learning. http://www.youtube.com/watch?v=rpbkdeyFxZw
Manifesto 15 by John Moravec et al is licensed under a Creative Commons Attribution 4.0 International License.